
Starfsemi leikfélagsins er hafin þetta skólaárið og þau í LMA ætla að byrja þetta með spunanámskeiði næstu 3 vikur sem endar á stórri Leiktu Betur keppni í kvos Menntaskólans! Jón Gunnar Þórðarson, sá sem leikstýrði „Vorið vaknar“ hjá LMA í fyrra og stofnaði Leiktu Betur keppnina, ætlar að vera með námskeiðið og mun njóta aðstoðar píanista.
Spuni er alls ekki bara fyrir fólk með reynslu af leiklist heldur geta allir verið með, það eina sem þarf er gott hugmyndarflug og kjark til að vera með. Kennt verður í þremur mismunandi hópum: Einn á þriðjudögum frá 16-18, einn á miðvikudögum frá 15:30-17:30 og síðasti hópurinn á fimmtudögum frá 16-18. Endilega láta það fylgja með skráningu hvaða dagur hentar best.
Það kostar 3000 kr að taka þátt og innifalið í verðinu er námskeiðið auk þess að fá frían aðgang að Leiktu Betur keppninni sem verður haldin þegar námskeiðinu lýkur. Það er ekki skylda að taka þátt í keppninni þó að maður hafi verið á námskeiðinu.
Ef að áhugi er fyrir því að keppa fyrir hönd MA í Leiktu Betur þetta skólaárið er nauðsynlegt að skrá sig á námskeiðið þar sem að liðið verður valið út frá því.
Endilega skrá sig, þið munuð ekki sjá eftir því!
Comments