Að undanförnu hafa bekkjarsystur mínar og ég, unnið að verkefni í fjölmiðlafræði sem fjallar um skólann okkar, kosti hans og galla og fleira. Meðal annars höfum við fengið í viðtal til okkar nokkra fjórðubekkinga sem munu von bráðar hverfa á braut úr skólanum með hvítu kollana sína. Við báðum fjórðubekkingana að líta um öxl og segja okkur hvort það væri eitthvað sem þeir sæju eftir að hafa gert eða ekki gert á skólagöngunni. Langflestir sögðust sjá eftir því að hafa ekki tekið meiri þátt í félagslífinu. Mér finnst það sorglegt og það vakti mig til mikillar umhugsunar. Mér finnst sorglegt að meirihluti nemenda sem útskrifast frá skólanum sjái eftir því alla ævi að hafa ekki tekið meiri þátt í félagslífinu. En þá liggur beinast við að spyrja, af hverju tóku þessir krakkar ekki virkari þátt í félagslífinu? Jú, sumir hafa kannski verið á fullu í íþróttum eða öðrum tómstundum og einfaldlega ekki gefið sér tíma fyrir félagslífið og vakna svo upp við þennan vonda draum í lok skólagöngunnar þegar orðið er of seint að gera eitthvað í málunum. Aðrir hafa kannski ekki þorað eða viljað. En svo eru enn aðrir sem hafa þorað, viljað og haft tíma til, en ekki fengið tækifæri. Með fullri virðingu fyrir fráfarandi stjórnarmeðlimum, sem eyddu auðvitað heilmiklum tíma og krafti í vinnuna, fannst mér árið í ár það slakasta á minni skólagöngu. Mér fannst ekki nógu mikið skila sér til okkar nemendanna. Stjórnin ætlar sér oft að gera allt. En þannig á það ekki að vera. Í skólanum eru 750 hæfileikaríkir einstaklingar sem margir hverjir vilja láta til sín taka. Væri ekki eitthvað mikið að í fyrirtæki þar sem forstjórinn vasast í öllum smáatriðum og drekkir sér í hinum ýmsu verkefnum sem undirmenn eru fullkomlega færir um að sinna? Hlutverk forstjóra í fyrirtæki er að hafa góða yfirsýn, fá fólk í lið með sér við að vinna að sama markmiði og halda utan um starfsemina. Það sama gildir um formann skólafélagsins. Af hverju er líka svona mikilli athygli beint að stjórninni sjálfri? Á ekki athygli hennar að vera á þátttakendum félagslífsins? Af hverju er mynd af stjórninni á veggnum fyrir ofan stigann á Hólum? Er stjórnin félagslífið? Já, svo ég tali nú ekki um peninginn ? peninginn okkar ? sem fer í þessi veggspjöld. En þá spyrja kannski einhverjir, af hverju ætti mér ekki að vera skítsama um þetta allt saman þar sem minni skólagöngu í MA er að ljúka? Svarið er að mér er einfaldlega ekki sama. Mér er ekki sama þó alltof margir nemendur útskrifist og sjái eftir að hafa ekki tekið meiri þátt. Mér er ekki sama um félagslífið í skólanum mínum. Og af hverju ætti ekki að gagnrýna og segja sína skoðun þegar manni finnst einhverju ábótavant? Kæru nemendur, félagslífið er okkar og þess vegna eigum við ekki að vera hrædd við að gagnrýna. Gagnrýni á störf sem barist er um að sinna á alltaf rétt á sér. Allsstaðar kjósum við á milli einstaklinga sem við treystum og trúum að muni gera eitthvað gott. Til dæmis í forseta-, alþingis-, bæjarstjórnarkosningum. Og alltaf fá þessir einstaklingar gagnrýni, sérstaklega ef þeir hafa ekki unnið störf sín vel að mati kjósenda eða ekki efnt kosningaloforð sín. Gildir ekki það sama um þá sem stjórna félagslífinu? Gagnrýni á félagslífið er leyfileg. Og nauðsynleg. Hingað til hafa fáir þorað að gagnrýna félagslífíð, augljóslega, af ótta við slæm viðbrögð. Ég veit hins vegar að margir eru sammála, að hluta til eða að öllu leyti þó sumir séu ósammála, sem er gott og blessað. En í guðanna bænum, hættum að vera hrædd við að láta skoðanir okkar í ljós. Minn draumur er að allir nemendur útskrifist frá skólanum með það í farteskinu að hafa tekið þátt í félagslífinu og séu sáttir við það. Eins og einn frambjóðandi sagði í ræðu sinni í kosningunum er það eftirminnilegasta úr skólanum ekki það sem hinir gerðu, heldur það sem maður gerði sjálfur. Það er mögulegt, en til þess þarf hugarfarsbreytingu. Stjórnin þarf að treysta nemendum fyrir verkefnum, gefa þeim kost á að taka af skarið og færa valdið í auknum mæli til þeirra. Þannig gefst stjórninni meiri tími til að sinna sínum verkefnum. Karen Sigurbjörnsdóttir, 4.I
top of page
bottom of page
留言