Hin árlega busavígsla Menntaskólans á Akureyri fór fram í dag, þriðjudaginn 20. september. Busarnir fengu að glíma við hin ýmsu verkefni, meðal annars ratleik, göngur, innvígslu og hinn alræmda busasirkus. Í lokin fengu síðan örþreyttir nýnemarnir að ganga upp menntaveginn og vonum við svo sannarlega að enginn hafi litið niður. Þar með komust þeir í hóp fullgildra menntskælinga. Dagurinn var tekinn snemma og hittust busar og böðlar í fyrstu tímum dagsins til að fara yfir dansspor dagsins og leggja lokahönd á búningavinnu. Þegar klukkan sló tíu sameinuðust busarnir í stíu í miðri Kvosinni og fylgdu fyrirmælum böðla sinna. Bekkirnir stigu síðan á svið einn af öðrum og reyndu til hins ítrasta að vera böðlum sínum til sóma með framandi danssporum. Um kvöldið hittust böðlar og busar í sameiginlegum kvöldverði og í kjölfarið var haldið stórglæsilegt busaball í Kvosinni þar sem MeisDarrinn hélt uppi stuðinu. Þetta árið var gríðarlega góð mæting eða rúmlega 340 manns. Meðfylgjandi er mynd af ballgestum þegar ballið stóð sem hæst.

Comments